Ísland, íbúð og kettlingar
Ætli það sé ekki tími til kominn að blogga á þessu ári!
Lífið hefur gengið sinn vanagang hjá mér, sambúðin gæti ekki gengið betur og Aliosha elskar að búa á Íslandi. Hann er yfir sig ánægður í vinnunni og finnst veðrið fínt, hann skilur ekki þegar fólk kvartar yfir veðrinu. Hann viðurkennir reyndar að það sé ekki mjög hlýtt hér á sumrin en hann segir að miðað við Gautaborg þar sem hann bjó sé veðrið hér mjög gott. Í Gautaborg er rigning og allt grátt og drungalegt megnið af árinu.
Það er einkum tvennt sem Aliosha er ósáttur við hér á Íslandi. Það fyrsta er verðlag á mat, hann getur ekki farið út að borða án þess að verða öskureiður, honum finnst þetta glæpsamlegt. Ég var alltaf að hugga hann með því að allt myndi lækka 1. mars en við sjáum því miður sama sem engan mun, sérstaklega ekki á veitingahúsum.
Hitt sem hann er ósáttur við er hvernig Íslendingar keyra, hann er vanur því frá Svíþjóð að vinstri akrein sé aðeins notuð við framúrakstur en tekur orðið alltaf framúr á hægri akrein hér þar sem hann fullyrðir að vinstri akrein sé fyrir þá sem keyra hægt. Eins heldur hann að það hafi gleymst að setja stefnuljós í megnið af bílunum hér.
Við búum í íbúðinni minni sem er rétt rúmir 50 fermetrar og enduðum á því að setja megnið af dótinu okkar í búðslóðageymslu þar sem við gátum varla snúið okkur við. Við settum íbúðina á sölu í lok mars og hún seldist á viku. Við erum búin að þvælast um allan bæ að leita okkur að húsnæði en gátum ekki ákveðið okkur hvar við vildum búa. Loks varð úr að reyna að fá íbúð í Grafarholti því ég vinn þar og eiga aðeins einn bíl. Við erum búin að gera tilboð í íbúð sem okkur líst ágætlega á og nú er bara að bíða og vona það besta.
Ein af ástæðunum fyrir því að íbúðin okkar er orðin full lítil eru kettirnir okkar. Við erum með tvær læður sem báðar voru að eignast kettlinga. Bon Bon átti 4 kettlinga 22. mars en Gullbrá 3 kettlinga 7. apríl. Við erum því með 9 ketti og hugsum með hryllingi til þess þegar 7 brjálaðir kettlingar fara að hlaupa um hér á þessu litla svæði. Síðan erum við að flytja inn læðu frá Svíþjóð sem kemur til landsins 7. maí. Ég veit ekki hvar þetta endar!!
Þeir sem hafa áhuga á því að skoða myndir af fallegustu kettlingum í heimi geta gert það á síðunni okkar hér http://www.alioshas.com