14.4.07

Ísland, íbúð og kettlingar

Ætli það sé ekki tími til kominn að blogga á þessu ári!

Lífið hefur gengið sinn vanagang hjá mér, sambúðin gæti ekki gengið betur og Aliosha elskar að búa á Íslandi. Hann er yfir sig ánægður í vinnunni og finnst veðrið fínt, hann skilur ekki þegar fólk kvartar yfir veðrinu. Hann viðurkennir reyndar að það sé ekki mjög hlýtt hér á sumrin en hann segir að miðað við Gautaborg þar sem hann bjó sé veðrið hér mjög gott. Í Gautaborg er rigning og allt grátt og drungalegt megnið af árinu.

Það er einkum tvennt sem Aliosha er ósáttur við hér á Íslandi. Það fyrsta er verðlag á mat, hann getur ekki farið út að borða án þess að verða öskureiður, honum finnst þetta glæpsamlegt. Ég var alltaf að hugga hann með því að allt myndi lækka 1. mars en við sjáum því miður sama sem engan mun, sérstaklega ekki á veitingahúsum.
Hitt sem hann er ósáttur við er hvernig Íslendingar keyra, hann er vanur því frá Svíþjóð að vinstri akrein sé aðeins notuð við framúrakstur en tekur orðið alltaf framúr á hægri akrein hér þar sem hann fullyrðir að vinstri akrein sé fyrir þá sem keyra hægt. Eins heldur hann að það hafi gleymst að setja stefnuljós í megnið af bílunum hér.

Við búum í íbúðinni minni sem er rétt rúmir 50 fermetrar og enduðum á því að setja megnið af dótinu okkar í búðslóðageymslu þar sem við gátum varla snúið okkur við. Við settum íbúðina á sölu í lok mars og hún seldist á viku. Við erum búin að þvælast um allan bæ að leita okkur að húsnæði en gátum ekki ákveðið okkur hvar við vildum búa. Loks varð úr að reyna að fá íbúð í Grafarholti því ég vinn þar og eiga aðeins einn bíl. Við erum búin að gera tilboð í íbúð sem okkur líst ágætlega á og nú er bara að bíða og vona það besta.

Ein af ástæðunum fyrir því að íbúðin okkar er orðin full lítil eru kettirnir okkar. Við erum með tvær læður sem báðar voru að eignast kettlinga. Bon Bon átti 4 kettlinga 22. mars en Gullbrá 3 kettlinga 7. apríl. Við erum því með 9 ketti og hugsum með hryllingi til þess þegar 7 brjálaðir kettlingar fara að hlaupa um hér á þessu litla svæði. Síðan erum við að flytja inn læðu frá Svíþjóð sem kemur til landsins 7. maí. Ég veit ekki hvar þetta endar!!

Þeir sem hafa áhuga á því að skoða myndir af fallegustu kettlingum í heimi geta gert það á síðunni okkar hér http://www.alioshas.com

15.11.06

afmæli

Ég átti afmæli í gær, er orðin 39 ára!! Finnst það ekkert svo hræðilegt, ég sjálf breytist ekki svo mikið þótt árin færist yfir. Ætli manni finnist maður ekki alltaf vera eins alveg sama hvað maður verður gamall. Ætli ég sjái nokkurn mun á mér þótt ég verði orðin gömul og grá?
Afmælisdagurinn byrjaði reglulega vel með afmælisgjöf í rúminu :), við ákváðum að borða bara heima um kvöldið og fara frekar út að borða á laugardagskvöldið til að halda upp á afmælið. Sem betur fer ákváðum við þetta því þegar ég kom heim var Aliosha kominn heim fárveikur með magakveisu og háan hita!! Ég stumraði því yfir honum, horfði aðeins á sjónvarpið og fór svo að sofa. Áður en ég fór að sofa fór ég þó á netið og pantaði borð fyrir tvo á Sjávarkjallaranum laugardagskvöldið, ég veit dálítið dýrt en maður verður ekki 39 ára nema einu sinni!!!
Þessa vikuna eru foreldraviðtöl í skólanum, ég kvíði foreldraviðtölum alltaf skil samt ekki af hverju. Maður skilur ekki alltaf hvernig hugurinn virkar hann er flókið fyrirbæri.

13.11.06

Nýr bíll

Við Aliosha drifum okkur eftir vinnu í dag og keyptum okkur nýjan bíl :) eða skal ég frekar segja annan bíl. Við sáum auglýst tilboð um helgina hjá Heklu og ákváðum að skella okkur á það. 2005 árgerð VW Polo á 3,8% vaxta láni.´Núna eigum við því nýjan og fínan bláan bíl og svo Almeruna mína. Við ætlum reyndar að skipta henni út fyrir jeppa... það er ekki hægt annað en að eiga jeppa á Íslandi.
Það var frekar skondið þegar Aliosha kom fyrst til landsins fannst honum þessir upphækkuðu jeppar hálf fáránlegir og skildi ekkert í því hvers vegna fólk var að keyra um á þessu. Þar þurfti ekki nema eina ferð á svona grip í Landmannalaugar og hann var kolfallinn þannig að jeppi hefur verið efst á óskalistanum í talsverðan tíma.

9.11.06

Tími til kominn

Ákvað að það væri nú tími til kominn til að fara að blogga aftur, þetta var einu sinni svo stór hluti af lífi mínu og ég tími ekki alveg að sleppa þessu endanlega....
Það hefur ansi margt gerst síðan ég bloggaði síðast í júlí.
1. Aliosha er fluttur til mín og búinn að búa hér í rúmlega mánuð og gengur sambúðin frábærlega vel. Hann er kominn með mjög góða vinnu og er bara nokkuð sáttur. Honum finnst reyndar íslendingar mjög óskipulagðir, þeir kunna ekki á klukku og ekki að nota stefnuljós en annars bara ágætis fólk :).
2. Ég er ennþá að kenna en orðin hálf leið, fúl út í kaupið og er eitthvað ekki að finna mig þessa dagana. Ég veit ekki alveg hvað það er, kannski bara að ég er ekki í námi með vinnunni lengur og vantar eitthvað til að koma mér í rétta grírinn. Ég þarf að spá eitthvað meira í þetta.
3. Við Aliosha fórum með Gullbrá og Bon bon á kattarsýningu um daginn. Það gekk alveg frábærlega, Gullbrá hefur aldrei gengið svona vel áður og Bon bon gekk mjög vel líka þannig að ég er ánægð með þær. Svo er vonandi von á kettlingum um áramótin því Gullbrá brá sér í heimsókn til Seljens um daginn.
4. Gríma litla, uppáhalds kisan mín, er flutt á annað heimili. Hún var svo pirruð út í hinar kisurnar og pissaði endalaust á ´gólfið svo ég varð að finna annað heimili handa henni. Núna býr hún hjá yndislegri stúlku í Grindavík. Það gekk reyndar ekki átakalaust að láta hana það er langt síðan ég hef grátið svona mikið. En lífið er víst ekki alltaf eins og maður vill hafa það.
5. Við erum búin að umturna íbúðinni og kaupa hálft IKEA :), veit reyndar ekki alveg hvernig við náum að koma þessu öllu fyrir í 50 fermetrum!!!! Enda erum við ekki búin að ganga frá öllu, vitum ekki alveg hvert við eigum að setja sumt af dótinu.

Jæja þetta er nóg í bili, ég ætla að reyna að láta ekki marga mánuði líða á milli næst....

20.7.06

Líf mitt í dag

Það er orðið svo langt síðan ég bloggaði síðast að ég var næstum því búin að gleyma aðgangsorðinu!!!!
Það hefur svo margt gerst í lífi mínu síðustu mánuðina að ég veit varla hvar ég á að byrja. Það merkilegasta sem hefur gerst er að ég er búin að hitta þann eina rétta :D. Ótrúlegt en satt!! Hann er sænskur og heitir Aliosha og hefur áhuga á köttum eins og ég. Við trúlofuðum okkur 23. júní og í byrjun október ætlar hann að flytja hingað til mín!! Ég get ekki beðið, hann er í heimsókn núna en fer aftur til Svíþjóðar í byrjun ágúst mánaðar og gengur frá lausum endum. Lífið gæti ekki verið betra, þetta er ástæðan fyrir því að ég er svo til hætt að blogga, ég hef einfaldlega ekki tíma.
Síðan ég bloggaði síðast er ég búin að fara eina stutta ferð til Svíþjóðar. Eina mánaðarferð til Svíþjóðar. Vera viðstödd brúðkaup bróður míns sem á heima í Svíþjóð og margt margt fleira. Svona á lífið að vera :).

6.5.06

Tók eftirfarandi próf, útkoman passar ágætlega ég hef alltaf haft mikinn áhuga á líffræði þótt ég hafi reyndar endað sem kennari.

You scored as Biology. You should be a Biology major! You are passionate about the sciences, and you enjoy studying cell growth and evolutionary concepts which enable living organisms to survive. Pursue that!

Biology

100%

Anthropology

92%

Psychology

83%

Sociology

83%

Mathematics

75%

English

75%

Dance

75%

Journalism

75%

Philosophy

67%

Theater

67%

Art

58%

Chemistry

58%

Linguistics

50%

Engineering

50%

What is your Perfect Major? (PLEASE RATE ME!!<3)
created with QuizFarm.com

29.4.06

hamingjusöm

Ég er virkilega hamingjusöm í dag :). Ég er búin með ritgerðina sem er búin að hvíla á mér eins og mara síðustu tvo mánuðina!!! Ég var aðeins komin af stað, sat síðan við í allan dag og skrifaði og skrifaði!!! Náði að klára 13 blaðsíður sem´ætti að duga. Nú á ég bara eftir að laga aðeins heimildaskránna og lesa yfir sem ég ætla að gera á morgun! Þannig að framundan er frí og ekkert meira nám í bili!! Frábært!

Svo kemur Bon bon til landsins á miðvikudaginn! Þótt ég fái ekki að sjá hana sjálf fyrr en í byrjun júní finnst mér svo ótrúlegt að hún sé að koma bara í næstu viku! Ég er búin að bíða eftir henni í 5 heila mánuði, sem reyndar hafa verið ótrúlega fljótir að líða. Já það er aldeilis bjart framundan :) :) :)

22.4.06

This Is My Life, Rated
Life:
7.2
Mind:
7.6
Body:
7.7
Spirit:
7.5
Friends/Family:
5.5
Love:
1.4
Finance:
8.4
Take the Rate My Life Quiz

21.4.06

aumingi

Föstudaginn langa fór ég út að skemmta mér og skemmti mér ansi ærlega :). Fór á Players með nokkrum vinkonum og dansaði á fullu. Daginn eftir leið mér ekkert alltof vel, sem var kannski eðlilegt miðað við aðstæður, mér fannst það samt dálítið skrítið hvað mér var illt í hálsinum.
Á páskadag vaknaði ég með ennþá verri höfuðverk en daginn áður, að drepast í hálsinum, búin að missa röddina og með hósta í þokkabót. Þetta gat ekki verið annar í þynnku!! Ég tók verkjatöflur og reyndi að sannfæra sjálfa mig um að allt væri í fína lagi, ég ný stigin upp úr flensu gæti nú varla verið orðin veik aftur, eða hvað!!! Ég skrönglaðist í mat til Kötu systur um kvöldið, borðaði þar dásamlegan mat og dreif mig svo heim.
Þegar heim var komið lagðist ég undir sæng í sófanum og hélt ég væri að deyja, ég held ég geti með sanni sagt að eins kvalarfullan höfuðverk hef ég aldrei áður fengið, samt fannst mér hann nógu slæmur þegar ég var með flensuna. Ég tók upp mælinn minn góða og viti menn ég var með næstum því 39 stiga hita!! Ég varð þar með að horfast í augu við það að ég var orðin veik, fárveik.
Ég lá í rúminu alveg að drepast allan mánudaginn en fór samt í vinnuna á þriðjudag og miðvikudag!! Dröslaðist þetta á þrjóskunni. Það átti að kryfja fiska á miðvikudeginum og þar sem ég var sú eina sem hafði gert þetta áður og átti þar að auki að sækja fiskana varð ég að mæta!
Þegar ég kom heim á miðvikudaginn eftir vinnu (ég fór frekar snemma heim) fór ég beint upp í rúm og svaf í nokkra klukkutíma, vaknaði í um klukkustund til að borða og fór svo aftur að sofa.
Í gær (sumardaginn fyrsta) ákvað ég að drífa mig til læknis þar sem ástandið virtist ekkert vera að batna, röddin var ekki komin aftur, höfuðverkurinn á milli verkjapilla vægast sagt hræðilegur.
Ég borgaði morðfjár á læknavaktinni til að hitta bjargvættinn. Með tárin í augunum sagði ég honum hversu ómissandi ég væri, að ég ætti að vera að skrifa ritgerð, að ég væri ný stigin upp úr flensu, að ég væri að missa vitið á þessum veikindum....
Það var alveg sama, ekkert beit á hann!! Ég gekk út með ekki neitt!! Ég var komin með flensu aftur, bara annað afbrigði! Þau eru víst tvö í gangi og leika sér að því að angra sama fólkið!!
Ég var því heima í dag og verð heima alla helgina, vona að ég verði orðin góð á mánudaginn, annars veit ég ekki hvað ég geri!!!

10.4.06

Svíþjóð og draumaland

Fullt að gerast hjá mér núna. Ég fór austur til Gunnhildar um helgina. Við vorum að plana ferðina til Svíþjóðar sem við ætlum að fara í sumar því bróðir okkar er að fara að gifta sig. Við sátum yfir tölvunni og plönuðum og plönuðum, keyptum farið, pöntuðum bílaleigubíl og hótel svo nú er bara að bíða eftir sumrinu!!!!

Ég er komin í páskafrí og hef það virkilega náðugt. Var í rúminu langt frameftir degi í dag og fór svo í ræktina. Ég ætla reyndar fyrr á fætur á morgun.
Ég keypti mér bókina Draumalandið, sjálfshjálparbók handa hræddri þjóð og ætla að byrja að lesa hana á eftir.

Það sem ég á að vera að gera er að skrifa ritgerð, ritgerð um millistjórnanda, en á morgun segir sá lati alltaf.... er það ekki annars....